7.
febrúar 2004
Menn eins og Ólafur Jóhannsson vaxa ekki á trjám. Ólafur er nefnilega vinur
Ísraels. Hann hefur dvalið í Landinu helga flest sumur síðustu 25 árin og fer
fyrir samtökum sem kalla sig Zion – Vini
Ísraels. Hann þekkir aðstæðurnar betur en margir aðrir og er ekki sáttur við
umfjöllun hérlendra fjölmiðla af gangi mála. Ólafur á marga vini meðal araba og
gyðinga en er vonlítill um að varanlegur friður geti komist á. Hann telur
gyðingahatur fara vaxandi
–
ekki síst hér á landi.
Kóraninn boðar hatur og dráp
"Arafat er tákn hins illa og hann hefur víða skapað vandræði. En það þýðir ekki að við eigum að hætta að biðja fyrir honum." |
|
|
"Í Kóraninum er múslímum bannað að gera sér vini meðal Kristinna manna og gyðinga. Þetta getur fólk lesið í Kóraninum og þar eru múslímar raunar hvattir til að drepa gyðinga. Kóraninn boðar hatur og dráp." |
Ólafur Jóhannsson er formaður félagsins Zion - Vinir Ísraels og er með vikulegan sjónvarpsþátt á Omega sem heitir Ísrael í dag. Félagið heldur einnig úti vefsvæðinu zion.is. |
"Ég hef dvalið mikið í Ísrael
síðust 25 árin
– yfirleitt frá maí til september – þar sem ég hef starfað sem leiðsögumaður. Svo
er ég formaður félagsins Zion sem stofnað var fyrir rúmum áratug. Í fyrstu
vorum við 12 en erum nú á fimmta hundrað félagar," segir Ísraelsvinurinn Ólafur
Jóhannsson sem er auk þess með vikulegan sjónvarpsþátt, Ísrael í dag, á
sjónvarpsstöðinni Ómega.
Fjölmiðlar segja ekki satt
"Þótt við séum vinir Ísraels þýðir það ekki að
séum óvinir annarra og við réttlætum ekki allt sem á sér stað í Ísrael. Það er
ekki okkar boðskapur. Við erum kristnir Ísraelsvinir og trúum því að þetta sé
land fyrirheitanna. Við trúum á Guð og að Hann gangi ekki á bak orða sinna
–
Hann gaf þjóð sinni landið til eilífrar eignar og við trúum því að fyrirheitið
eigi eftir að rætast," segir Ólafur en félagið hefur líka stutt Skóla vonarinnar
í Beit-Jala. Um er að ræða kristinn skóla sem mjög fátæk Palestínsk ungmenni
sækja.
Ólafi finnst að í umfjöllun fjölmiðla hér á landi og víðar halli nokkuð á gyðinga og
fréttirnar sýni ekki sannleikann.
"Það særir mig oft að lesa fréttir af svokölluðum Palestínuvinum og frásögnum
þeirra. Þeir leggja áherslu á grimmd Ísraels og hersins og myndirnar sem við
sjáum eru oftast af grátandi arababörnum sem hafa misst foreldra sína. Þetta er
mjög sterkt og áhrifamikið að sjá en aldrei er talað um af hverju foreldrar
barnanna hafi fallið. Þess vegna er félagið Zion til og við viljum m.a. vekja
athygli á hvers vegna ástandið er svona. Fjölmiðlar leggja t.d. enga áherslu á
þann mikla fjölda araba sem býr á Gaza en vinnur í Ísrael. Með því eru
Ísraelsmenn að veita þeim lifibrauð en svo um leið og óeirðir verða og
landamærunum er lokað segja fjölmiðlar frá því að arabar komist ekki til vinnu
vegna illsku Ísraelsmanna. Hér á landi var heldur ekkert greint frá því þegar
upp komst um stuld Arafats á miklum fjármunum sem hann lagði inn á bankareikning
sinn í Sviss og konu sinnar í Frakklandi. Þetta var á forsíðum blaða alls staðar
nema hér."
Kóraninn hvetur til drápa
Ólafur telur rót þess illa sem veldur deilunum liggja í andlegum málefnum
– íslam. Hann leggur þó áherslu á að hann sé vinur margra araba og að múslímar séu
ekki allir illir. Illskan er í íslamstrúnni og þetta segir Ólafur augljóst þegar
Kóraninn er lesinn.
"Ísrael er mjög lítið land u.þ.b. 20.000 ferkílómetrar og umkringt 20 stórveldum sem
öll eru múslímaríki með samtals um 200 milljónir íbúa. Ísrael er eins og lítið
krabbamein í þjóðfélagi araba sem þeir vilja eyða. Í Kóraninum er múslímum
bannað að gera sér vini meðal kristinna manna og gyðinga. Þetta getur fólk lesið
í Kóraninum og þar eru múslímar raunar hvattir til að drepa gyðinga. Kóraninn
boðar hatur og dráp, en þrátt fyrir það finnast jafnvel íslenskir prestar sem
segja Allah og Guð Biblíunnar vera þá sömu. Biblían boðar aftur á móti að Guð
elski alla menn," segir Ólafur og bendir einnig á að arabarnir hafi alla burði til
að leysa vandann sem skapast hefur vegna flóttamannabúðanna. Það er þó ekki gert
vegna áróðursgildis.
"Þessar flóttamannabúðir eru ekki í Ísrael heldur á landssvæðum araba og
auðvelt væri að leysa vandann með því að koma þessu fólki t.d. fyrir í Jórdaníu.
Það vilja arabarnir hins vegar ekki gera vegna áróðursgildis búðanna –
flóttamenn eru á fimmtu milljón í dag og aðstæður þar eru skelfilegar," segir Ólafur sem
fer reglulega með hópa í leiðangra að flóttamannabúðunum.
Vaxandi gyðingahatur
Gyðingahatur fer vaxandi að mati Ólafs og hann
telur það ekki bara eiga sér pólitískar rætur heldur fyrst og fremst andlegar.
"Gyðingahatur hefur alltaf verið til en það er mín sannfæring að kirkjan eigi
hlut að máli. Hinir fyrstu kaþólsku biskupar meinuðu gyðingum að taka þátt í
guðsþjónustum – af því að þeir drápu Jesú. Lúther skrifaði líka á
sínum síðari árum bækur gegn gyðingum – þeir voru undir bölvun fyrir að drepa Jesú. Þessi
kenning lifir en í kirkjunni og ég man bara þegar ég var í sunnudagaskóla sem
drengur að okkur var sagt að muna að það voru gyðingar sem drápu Jesú," segir
Ólafur og bendir á orð Göbbels, áróðursmeistara Hitlers, máli sínu til stuðnings.
"Þegar einhver gerðist svo djarfur að spyrja Göbbels hví nasistar leggðu svo
mikla áherslu á að drepa gyðinga, svaraði hann að þeir hefðu ekki gert annað en
kirkjufeðurnir boðuðu."
Múrinn verndar Ísrael frá hryðjuverkamönnum
Þegar hann er spurður út í hvað honum þyki um
múrinn umdeilda sem verið er að reisa utan um Ísraelsríki segir hann að hann sé
slæmur.
Hann vonast til þess að hægt verði að losna við hann í framtíðinni.
"Múrinn er mjög umtalaður, af eðlilegum ástæðum. Mér finnst að hann ætti ekki að
vera til staðar – hann er ljótur og skemmir landslagið og því finnst mér sem
leiðsögumanni leiðinlegt að hafa hann. Nú síðast hafa margir tekið að kalla
þennan múr Arafatsmúrinn í stað þess að kenna hann við Sharon enda er hann
byggður til að vernda litla Ísrael frá Arafat og hryðjuverkamönnum. Árásum hefur
þó fækkað eftir að múrinn var settur upp," segir Ólafur sem vonar að ástandið í
Ísrael eigi eftir að batna þegar Arafat fer frá.
"Arabar eru hræddir við Arafat og samtök hans. Þeir sem gefa sér tíma til að
kynna sér ævi Arafats sjá að spor hans eru blóðug. Hann hefur verið í Jórdaníu
þar sem hann ætlaði að taka völdin ásamt PLO, hann var rekinn þaðan en fór þá
til Líbanon. Þar gerði hann allt vitlaust og var rekinn burt en fór þess í stað
til Túnis. Arafat er tákn hins illa og hann hefur víða skapað vandræði. En það
þýðir ekki að við eigum að hætta að biðja fyrir honum," segir Ólafur og bætir
við að samtök eins og Hamas hafi sagt að þeir vilji aldrei semja frið við Ísrael.
Hann er því vonlítill um að varanlegur friður geti komist á, en á þó von á
að hægt verði að bæta ástandið til muna og koma á vopnahléi.
"Friðurinn kemst aldrei á með lagasetningu; hann byrjar í hjarta sérhvers manns
og sem kristinn zionisti hvet ég fólk til að biðja fyrir Arafat, andstæðingum
Ísraels og ekki síður svokölluðum Palestínuvinum."
Arafat vill ekki frið
Ólafur segir það ekki vilja Arafats að koma á friði. Hann bendir á samkomulag
sem gert var fyrir tilstuðlan Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta sem Arafat
hafnaði.
"Menn viðurkenna það ekki, en það er staðreynd að Arafat hafnaði tillögu sem kom
frá Clinton um að arabar fengju 96% Vesturbakkans og hálfa Jerúsalem. Þetta er
það sem þeir hafa barist fyrir lengi og margir arabískir vinir mínir í
Ísrael/Palestínu furða sig á þessari ákvörðun Arafats. Menn sjá að hann vill
engan frið – hann
vill fá alla Palestínu og alla Jerúsalem, sem hefur, samkvæmt minni sannfæringu,
verið höfuðborg Ísraels í meira en 3000 ár. Margir hafa stjórnað borginni á
þessum tíma en hún hefur aldrei verið höfuðborg neins ríkis nema Ísraels," segir
Ólafur og bendir á að Palestínskt ríki hafi aldrei verið til, þótt Arafat hafi
með tilboði Clintons fengið tækifæri til að stofna það.
"Þetta er eitthvað sem fáir vita. Það hefur aldrei verið til Palestínskt ríki
þótt það geti gerst í framtíðinni. Ég segi fólki þess vegna oft að
svokallaðir Palestínumenn hafi ekki sama rétt og Ísraelar til að bera vopn, vegna
þess að þeir eru ekki sjálfstætt ríki. Þrátt fyrir það segja fjölmiðlar alltaf
frá því að arabar séu myrtir en Ísraelsmenn láti lífið þegar átök eiga sér stað.
Ung tveggja barna móðir sprengdi sjálfa sig nýverið í loft upp með það í huga að
drepa sem flesta og fjórir ungir menn létu lífið. Mogginn birti nokkru síðar
myndir af grátandi börnum sem höfðu misst móður sína sem Ísraelskir hermenn
höfðu skotið. Hinir fjórir ungu Ísraelsmenn sem sprengjukonan myrti áttu líka börn sem sakna feðra
sinna," segir Ólafur og sendir fjölmiðlum tóninn.
Ágúst Bogason
agust@dv.is