Sunnudagur 12. október 2003
Ávarp Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, við hátíðahöld
Kristna sendiráðsins á Laufskálahátíð 2003
![]() |
Michael Utterback og
Malcolm Hedding frá Kristna sendiráðinu bjóða Ariel Sharon velkominn. |
Kæru vinir,
Velkomin til Jerúsalem, höfuðborgar gyðingaþjóðarinnar sl. 3000 ár. Jerúsalem er sameinuð, óskipt höfuðborg Ísraelsríkis að eilífu.
Þið eru stödd hér, vegna þess að hjarta ykkar og sál, hafa leitt ykkur hingað til lands Biblíunnar. Ég flyt ykkur kærar þakkir, fyrir að koma hingað og sýna okkur samstöðu. Nærvera ykkar er sterk skilaboð til umheimsins og vinátta ykkar er okkur mikilvæg.
Ísrael er einstakur staður í veröldinni. Þegar þið komið hingað, þurfið þið ekki leiðsögubók, vegna þess að þið eruð með Biblíuna í höndunum.
Síðastliðin þrjú ár, höfum við átt í stríði, sem var þröngvað upp á okkur af palestínumönnum. En stríðið hófst ekki fyrir þremur árum, það hófst fyrir meira en 120 árum síðan. Rót þess er sú, að arabaheimurinn hefur neitað að viðurkenna og sættast á réttindi gyðingaþjóðarinnar til að lifa í lýðræðislegu ríki gyðinga í landi ættfeðranna, sem er vagga gyðingdómsins.
Þessu hryðjuverkastríði, hefur ekki tekist að brjóta niður anda okkar. Það er staðföst ákvörðun okkar að láta slíka aðila skilja að þeir munu ekki ávinna neitt með ofbeldi, hryðjuverkum eða óhróðri.
Ísrael er friðelskandi land. Við sækjumst eftir friði. Við erum tilbúin að sættast á erfiðar fórnir fyrir raunverulegan og varanlegan frið sem varir margar kynslóðir, en það kemur ekki til greina að fórna öryggi íbúa ísraelsríkis. Þegar kemur að öryggi okkar sem búum hér, þá mun Ísrael ekki samþykkja neinar málamiðlanir. Það verður engin eftirgjöf þegar kemur að öryggi Ísraels og íbúa þess. Það er vegna þess, að við vitum mæta vel að Ísraelsríki, þótt það sé örsmátt ríki, er eini staðurinn í heiminum, þar sem gyðingar hafa rétt til að verja sig sjálfir, af eigin rammleik. Og ég tel að það sé söguleg skylda mín að verja gyðingaþjóðina. Þegar kemur að tilvist gyðingaþjóðarinnar, þá munum við ekki taka þátt í neinni eftirgjöf, hvorki nú né í framtíðinni.
Jerúsalem er borg friðar. Það er minnst á Jerúsalem 677 sinnum í Biblíunni. Nafnið Zíon, sem einnig er notað yfir Jerúsalem er nefnt 154 sinnum til viðbótar og nafn Davíðs konungs er nefnt 1083 sinnum. Það var fyrst eftir að Jerúsalem var endursameinuð árið 1967, með Musterishæðina sem miðpunkt, að gyðingar og aðrir trúarhópar höfðu frelsi til að stunda bænir við alla hina helgu staði. Kristnir menn, gyðingar og aðrir fengu frelsi til trúariðkana án þvingana. Og ég get frætt ykkur á því, að þetta frelsi til trúariðkana mun ekki vara áfram, nema því aðeins að hinir helgu staðir verði áfram undir okkar stjórn.
Þegar þið sjáið fyrirsagnirnar og myndirnar þar sem allt er þakið í ryki og blóði, þá fá menn þá tilfinningu, að í Ísrael byggist allt á árangri í öryggismálum. En það er líka önnur hlið á þessu landi, sem lítið er sagt frá, en það er þjóðfélagið, menningin og það sem er mikilvægast — fólkið sjálft.
Við eigum stórkostlegt þjóðfélag, sem byggist á lýðræði og frelsi. Ríki sem er bæði gyðinglegt og lýðræðislegt — eina lýðræðislandið í Mið-Austurlöndum. Geysimikill árangur í raunvísindum, eins og læknisfræði, hátækni og landbúnaði, svo og tónlist og hugvísindum er þekktur um allan heim. Og ég vona að sá dagur komi, að við verðum þekkt fyrir þessi afrek sem hér hafa átt sér stað.
Við erum að sjá uppfyllingu á spádómi Biblíunnar, um að gyðingar muni aftur safnast heim í land forfeðranna. Við höfum tekið við milljónum gyðinga, innflytjendum frá 102 löndum, sem tala 82 mismunandi tungumál. Í dag tala þeir hebresku, tungumál Ritninganna, en við eigum eftir að taka á móti afar mörgum til viðbótar.
![]() |
Lofgjörðarsveitin syngur og spilar fyrir Sharon |
Hjálp ykkar og stuðningur er okkur mikilvægur. Það eru margar áskoranir framundan, en ykkar hjálp er mikilvæg, til að við fáum að sjá drauma okkar rætast. Því miður þá get ég ekki séð ykkur [í þessum björtu ljósum]. En ég heyri í ykkur [hávær fagnaðarlæti]. Þið þekkið vel, að allir hafa af og til áhyggjur og ég er þar með talinn. Þið vitið að við höfum mörg áhyggjuefni hér, en nú finnst mér, að ég hafi þörf fyrir að hitta ykkur oftar. Ég þarf að hitta ykkur oftar og ég þarf að heyra oftar í ykkur.
Þrátt fyrir áskoranirnar eða hindranirnar, þá er ég viss um að við getum horft fram á við með bjartsýni. Samtaka og með ykkar stuðningi, getum við séð vonir okkar og drauma um frið, öryggi og velmegun í öllu landinu, verða að veruleika.
Mig mundi langa til að eyða öllu kvöldinu með ykkur. Ég bið ykkur að afsaka, því ég hef ekki lokið verkefnum mínum í kvöld, en ég þarf svo sannarlega einnig að heyra ykkar rödd.
Ég vil þakka ykkur sérstaklega fyrir að koma hingað. Mig langar til að þakka ykkur fyrir samstöðu ykkar og trú ykkar á landinu og hinu gyðinglega ríki, þar sem við munum framkvæma allar vonir okkar og drauma í framtíðinni. Ég er bjartsýnn á að við munum sjá allar vonir okkar og drauma rætast.