Félagið

       
 
Um félagið

 Fréttir

Um Ísrael

Ísland og Ísrael

Um Gyðinga

Tenglar

English


  Um gyðingdóm og hátíðir Gyðinga

Sh'ma Yisrael Adonaj Elohenú Adonaj Echad
 “Heyr, Ísrael, Drottinn, vor Guð, er einn Drottinn!”
                                                  (5. Móseb. 6:4)

Samkvæmt trú Gyðinga, á líf mannanna að endurspegla þá staðreynd, að Guð Ísraels er einn almáttugur Guð skapari himna og jarðar og enginn Guð nema Hann. Allt lífið á að helgast. Þar er engin aðgreining, engin skipting í helguð svið og vanhelg. Heimilið er helgidómur Guðs, borðið altari og mannleg samskipti eiga að bera réttlætinu vitni. Guðrækinn Gyðingur gengur sín daglegu spor með þakkargjörð. Hann blessar mat sinn og drykk, engu síður en helgidagsljósin og ný klæði. Lögmálið (torah), sem skráð er í fimm bókum Móse, inniheldur söguleg atriði, ýmis lagafyrirmæli, siðareglur og helgireglur (613 boð og bönn). Þar eru tíu boðorð Guðs, en auk þess nákvæmar reglur um fæðu, siðferðismál, ölmusugjafir, bætur fyrir gerðan skaða og fjölmargt fleira. Maðurinn er skapaður í Guðs mynd og hefur frjálsræði til að gera hið góða, Guðs vilja, eða snúa baki við því, falla frá Guði og syndga. Gyðingar neita meðfæddum syndugleik, en þeir viðurkenna meðfædda hneigð til ills. Gyðingar hafna kenningum kristindóms um frelsi frá syndum.


 Orthodox (Haredi) Gyðingur

 Ef maðurinn elskar Guð og reynir að keppa í átt til hans, verður hann líka að elska það sem Guð hefur skapað, fyrst og fremst aðra menn. Kærleikur Guðs og lögmálið eru eitt. Gyðingar telja að framundan sé koma hins fyrirheitna spámanns Messíasara) og friðarríkis hans, er þjóðirnar munu „smíða plógjárn úr sverðum sínum“.
a) Messíanskir kallast þeir Gyðingar, sem hafa tekið við Jesú Kristi sem Messíasi, en fylgja áfram gyðinglegum venjum og hefðum. Meirihluti messíanskra Gyðinga heldur því fram að Jesús hafi kennt og uppfyllt lögmálið og það sé því í fullu gildi. Börn Ísraels og landið Ísrael séu þungamiðjan í áætlun Guðs á jörðinni. Meirihluti messíanskra Gyðinga fylgir þrenningarkenningunni, en minnihlutinn telur hana ekki samrýmast grunnstefi lögmálsins, að Guð skapari himna og jarðar sé aðeins einn. Messíanskir Gyðingar skiptast einnig í tvo hópa, varðandi guðdóm Jesú Krists. Meirihlutinn telur Jesú Krist guðlegs eðlis en minnihlutinn telur hann hinn fyrirheitna spámann (Messías), en ekki guðlegs eðlis.
Talið er að nú séu um 360 þúsund messíanskir Gyðingar víðs vegar um heiminn (þar af um 20 þúsund í Ísrael).
Gyðingar trúa á ódauðleik sálarinnar og réttvíst endurgjald í öðrum heimi.
Þegar Guð gerði Ísrael að sinni útvöldu þjóð, lagði hann skyldur á herðar henni. Hann gerði þjóðina að þjóni sínum, er kunngjöra skyldi öðrum þjóðum orð Hans. Margir Gyðingar og kristnir menn líta svo á, að það sé köllun gyðingdómsins allt til endaloka sögunnar að bera þjóðunum vitni um drottinvald Guðs yfir veröldinni.
Ritningar Hebrea, (hebr. tanakh), sem kristnir menn kalla Gamla testamenti, eru aðallega á hebresku en einnig eru kaflar á arameísku. Ritningunum er skipt í þrjá flokka. Lögmálið (Torah), spámennina (Nevi‘im) og ritin (Ketuvim), TaNaKh. Ritin eru flokkuð í þrjá hluta, þ.e. sálma og ljóð, spekirit og sögurit.
Eftir uppreisn gegn Rómverjum í Ísrael sem kennd er við Bar Kokhba gerðu Rómverjar það að líflátssök að nota nafn Guðs, YHWH opinberlega í landinu. Var því ákveðið nota í staðinn titla eins og Adonai í töluðu og rituðu máli þar til Messías kæmi og frelsaði landið.
Við eyðingu Jerúsalem 70 e.Kr., var musterið eyðilagt og fórnir samkvæmt lögmálinu lögðust af og Gyðingaþjóðin dreifðist vítt og breitt um veröldina. Lögmálið torah, hélt áfram að vera þungamiðjan, en lögvitringarnir, rabbínar komu í stað presta og spámanna. Öldum saman höfðu menn skýrt fyrirmælin í bókum Móse, aukið þau og samræmt nýjum aðstæðum. Þannig varð erfikenningin „talmud“ til. Talmúdb) verður helst líkt við trúarlegar alfræðibækur.
b) Talmúd skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn, Misnah, er hið munnlega lögmál sem þróast hafði gegnum aldirnar og var skráð um 200 e.Kr. Síðari hlutinn var skráður um 500 e.Kr. og kallast Gemara. Prentuð útgáfa af Talmúd, er ríflega 6 þúsund blaðsíður.
Þar eru teknar fyrir og ræddar allar meiriháttar spurningar er varða líf Gyðinga. Þar eru lögmálsútskýringar, trúarlærdómar, textatúlkun, prédikanir, sögulegur fróðleikur og smásögur, hvað innan um annað. Menn reyndu að finna út frá orðum Gamla testamentisins nákvæmar reglur, boð og bönn, um öll tilfelli lífsins, raunveruleg og hugsanleg. Strangtrúaðir Gyðingar reyna að halda allar 613 reglur lögmálsins (248 boð og 365 bönn).
Gyðingar fylgja fjölmörgum reglum varðandi fæðu og matargerð. Þessar reglur nefnast einu nafni „kashrut“. Bannað er að leggja sér óhrein dýr til munns, svo sem svín, humar og rækjur. Dýrum þarf að slátra eftir réttum reglum, þannig að sem mest af blóðinu fari úr skrokknum. Einnig er bannað að borða sinar spendýra, er það byggt á frásögunni um glímu Jakobs. Einnig er bannað að neyta blóðs, því að sálin býr í blóðinu. Ekki má blanda saman kjötmeti og mjólkurmat, því í 5. Mósebók segir: „Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.“ Matur sem matreiddur er eftir settum reglum, er kallaður „kosher“.
Öll sveinbörn þarf að umskera á áttunda degi. Umskurnin er tákn þess að einstaklingurinn sé undir sáttmálanum sem Guð gerði við Abraham. Allir sem eiga Gyðing að móður, teljast til Gyðingaþjóðarinnar. Gyðingar líta á allar aðrar þjóðir, sem heiðingja.
Hvíldardagurinn (sabbatsdagurinn) er hátíð fjölskyldunnar. Hvíldardagurinn hefst við sólarlag á föstudegi og lýkur við sólarlag á laugardegi. Strangtrúaðir Gyðingar forðast hvers kyns verk á sabbatsdegi. Þeir ferðast ekki, nota ekki síma, skrifa ekki, snerta ekki peninga, kveikja ekki ljós og láta ekki taka af sér myndir. Tuttugu mínútum áður en sabbatshelgin hefst, tendrar húsfreyjan sabbatsljósin. Síðan blessar heimilisfaðirinn vínið og sneiðir sabbatsbrauðið. Eftir það er borðaður hátíðarmatur. Á laugardögum fer fram guðþjónusta í samkunduhúsum Gyðinga. Guðþjónusta Gyðinga er tiltölulega fábrotin. Samkunduhúsin hafa engar myndir. Það þarf að lágmarki tíu karlmenn, til að hægt sé að hafa guðþjónustu. Guðþjónustan samanstendur af bænum, sálmasöng, upplestri úr lögmálinu (parshah) og síðan úr ritum spámannanna (haftarah). Rabbíninn í viðkomandi samkunduhúsi (synagógu), sér um að prédika. Rabbíninn sér einnig um giftingar og jarðarfarir. Þótt lögmálið banni ekki fjölkvæni, hefur það ekki tíðkast meðal Gyðinga sl. 1000 ár.
Að fornri venju, eru sveinar blessaðir í samkunduhúsinu á næsta sabbatsdegi eftir 13. afmælisdag. Þá hafa þeir áður fengið uppfræðslu í lögmálinu og er falið að lesa upp úr lögmálinu við guðþjónustuna viðkomandi sabbatsdag. Þá verður sveinninn „Bar Mitzvah“, sonur lögmálsins. Á síðustu öld var sambærileg athöfn „Bat Mitzvah“ tekin upp fyrir stúlkur.
Helsta hátíð Gyðinga er páskar (pesach = framhjáganga), þegar Gyðingar minnast þess að Guð leiddi þjóðina út úr Egyptalandi. Um kvöldið við upphaf páskadags (14. dag nísan mánaðar), er páskamáltíðin (seder). Það er hátíðarmáltíð, þar sem fylgt er gömlum hefðum. Sálmar og textar úr 2. Mósebók 12. - 15. kafla eru lesnir til skiptis, meðan máltíðin stendur yfir. Við máltíðina er brotið ósýrt brauð, etið af páskalambinu og drukknir fjórir bikarar af víni samkvæmt hefðinni. Daginn eftir páskadag, er sérstakur hvíldardagur og hefst þá sex daga hátíð (15. - 21. dag nísan mánaðar) sem heitir hátíð ósýrðu brauðanna, því þá er aðeins notað brauð (matzot) sem ekkert ger er í (með páskadegi eru dagar ósýrðu brauðanna samtals sjö).
Hvítasunna (shavuot = sjöviknahátíð) er haldin hátíðleg á 50 degi eftir páskadag, en hún er upphaflega hátíð frumuppskerunnar* (frumgróðans, bikkurim). Síðar var farið að minnast þess, þegar Guð gaf Ísraelslýð boðorðin tíu í eyðimörkinni.
*Á þeim samyrkjubúum í Ísrael sem stunda akuryrkju, er haldið upp á hátíð frumgróðans. Tekið er af korn- og ávaxtauppskerunni (hveiti, bygg, vínber, granatepli, ólífur, fíkjur og hunang) og andvirðið lagt í Gyðinglega þjóðarsjóðinn (Jewish National Fund).

 
Ljósastika úr gulli sem á að lýsa í þriðja musterinu í Jerúsalem -
musteri friðarríkisins.

Laufskálahátíðin (sukkot) er sjö daga þakkar- og uppskeruhátíð, vegna ávaxtauppskerunnar á haustin. Hún er einnig haldin hátíðleg til að minnast þess, hvernig Guð hjálpaði Ísraelsþjóðinni í eyðimörkinni, þegar fólkið hafðist við í laufskálum. Tákn þessarar hátíðar eru fimm: Pálminn, sítrónan, myrtan og pílviðurinn, sem eru borin í helgigöngum samkunduhúsanna og súkkah“, laufskálinn þar sem siður er að sofa og neyta máltíða vikuna sem hátíðin stendur yfir. Þak skálans er gert úr pálmagreinum og minnir í senn á híbýlin sem notuð eru á uppskerutímanum og híbýlin sem notuð voru á ferðalaginu frá Egyptalandi.
Daginn eftir síðasta dag laufskálahátíðar er hátíð lögmálsins (simchat torah), en þá er því fagnað að lestri upp úr lögmálinu lýkur á síðasta kafla 5. Mósebókar og nýr hringur hefst á 1. kafla í 1. Mósebók. Á þessum degi er vinsælt að taka bókrollu lögmálsins í synagógum og fara í helgigöngu með bókrolluna í fararbroddi.
Hálfum mánuði á undan laufskálahátíðinni er nýársdagur Gyðinga (Rosh Hashanah). Þá er nýju ári fagnað. Níu dögum eftir nýársdag, er friðþægingardagurinn mikli (Yom Kippur). Friðþægingardagurinn er almennur iðrunardagur. Þá fasta flestir Gyðingar og biðja í sólarhring og sumir eyða deginum í synagógu.
Púrímhátíðin (purom = hlutkesti) er haldin í febrúar-mars. Þetta er einn mesti gleðidagur ársins, en þá er minnst Esterar, sem sagt er frá í Esterarbók og varð drottning Ahasverusar (Xerxesar) Persakonungs. Henni tókst að koma í veg fyrir að Gyðingar yrðu afmáðir úr ríki Persakonungs. Á þessari hátíð eru haldnir grímudansleikir og farið í skrúðgöngur.
Musterisvígsluhátíðin (hanukkah, ljósahátíðin) er haldin átta daga í desember. Á vígsluhátíðinni er minnst hreinsunar og endurreisnar musterisins árið 164 f.Kr., eftir að það hafði verið saurgað af Sýrlandskonungi í styrjöld. Sagan segir að kraftaverk hafi átt sér stað við endurvígsluna. Þegar musterið hafði verið hreinsað, fannst ekki nægileg ólífuolía til að viðhalda ljósum á hinni stóru sjö-arma ljósastiku sem var í musterinu.
 Það var aðeins til olía fyrir eins dags notkun. Þá gerðist kraftaverk. Olían dugði í átta daga, jafn marga daga og það tók að útvega meiri olíu. Á hverju kvöldi er kveikt á einu kerti, þar til öll átta kertin, sem eru á sérstakri átta-arma ljósastiku hafa verið kveikt. Á þessum ljósastikum er einn viðbótararmur, sem kallast „shamash“ (þjónninn) og er ljósið frá honum notað til að tendra hina armana.
Gyðingar skiptast í marga flokka, eftir því hversu hátíðlega þeir taka boð og bönn lögmálsins. Stærsti hópurinn er frjálslyndir Gyðingar, sem rækja trú sína að takmörkuðu leyti en fylgja ýmsum þjóðlegum trúar-hefðum. Heittrúaðir Gyðingar skiptast í nokkra flokka, m.a. strangtrúaða (Orthodox) og afar-strangtrúaða (Ultra-Orthodox).


Líkan af musterinu í Jerúsalem (um miðja 1. öld e. Kr.)

Úr ritinu Stutt ágrip af kristnisögu.
  Höf.  Eiríkur Magnússon 2019